Þögn og einvera

Þögn og einvera er eitthvað sem er búið að vera mér ofarlega í huga undanfarnar vikur. Í næstum hvert skipti sem að ég hlusta á kennslu um þann lífstíl sem að Jesús kennir okkur að lifa er talað um þetta sem lykilatriði en ég heyri aðra kristna ekki oft tala um að ástunda þetta reglulega. Sjálf er ég ekki þar undanskilin. En því meira sem að ég hef velt þessu fyrir mér því meira hef ég sannfærst um að ef að ég sárasjaldan vel að dvelja í nærveru Guðs þá mun ég aldrei þekkja hann á þann hátt sem að hann vill leyfa mér að þekkja sig. En þetta snýst um mitt val. Guð þvingar mig ekki til samfélags við sig. Ég hef ekki mikið um það að segja hvað gerist í þessum heimi en ég get valið að verja hluta af tíma mínum á þennan hátt. Ef að ég vel aðeins að ástunda þögn og einveru í takt við tilfinningar mínar, eftir því hvort að mig langi til þess eða ekki þá mun þetta aldrei verða partur af mínum lífstíl –sem kristinn einstaklingur– og samband mitt við Guð mun ekki dýpka. Ég mun ekki öðlast andlegan þroska.


Ég vil ekki vera kristin einungis að nafninu til en til þess að framtíð mín tilheyri Kristi –en ekki sjálfri mér– verð ég að taka ákvarðanir í dag og breyta eftir þeim. Að verða líkari Jesú er ákvörðun sem ég vil taka daglega og er ástundun þögn og einveru sannreynd leið til þess að eiga samfélag með Jesú.


Í kjölfar útbreiðslu Covid-19 hafa síðastliðnar vikur verið streituvaldandi og ekki er ólíklegt komandi vikur eru þér óþægilegar tilhugsunar og valda þér jafnvel vanlíðan. Ég er á sama stað. Ég hef fundið mun meiri tilhneigingu til að sækjast í hegðun sem myndi flokkast sem ,,veruleikaflótti‘‘ (e. escapist behavior) undanfarna daga. Þessi veira er ekki í okkar höndum en það sem við getum valið að gera er að fela Guði óttann og kvíðann, að setjast í faðm föðurins og fá raunverulega hvíld hjá honum. Þögn og einvera er ein leið til þess en einnig má nefna hvíldardaginn (e.sabbath). Ef þú hefur ekki kynnt þér hvað hvíldardagur er og hvernig þessi hefð getur virkað í nútímasamfélagi vil ég endilega hvetja þig til að athuga það og innleiða þetta boðorð í líf þitt. Í gegnum fyrstu bækur biblíunnar segir Guð Ísrael hvað eftir annað að minnast hvíldardagsins og halda hann heilagan en í látlausu amstri daglegs lífs kemur þessi helgidagur æ sjaldnar upp í hugann. Höfum við gleymt því að boðorðin hafa ekki fallið úr gildi?

Efni sett saman af John Mark Comer, sem finna má inn á heimasíðu kirkjunnar hans, er virkilega góður byrjunarpunktur: https://practicingtheway.org/practices/sabbath. Ef að þú hefur áhuga á því að kynna þér þögn og einveru betur er hægt að fá ítarlegar upplýsingar hér: https://practicingtheway.org/practices/silence-solitude Dagný Soffía93 views0 comments

Recent Posts

See All
  • White Facebook Icon
  • White Instagram Icon