Þú ert ekki ein(n).

Góði Guð,

Af hverju líður mér svona? Hjartað ólmast í brjósti mér. Hugsanir mínar mynda flóð í heilanum mínum sem drekkir allri rökhugsun og öllum frið. Hendur mínar skjálfa. Einhvern veginn er ég samt öll dofin. Ég finn fyrir þessum líkamlegum einkennum en innra með mér er ég bara dofin. Ég finn ekkert. Ég reyni að framkalla góðar minningar svo ég geti mögulega kreist fram bros og þannig platað sjálfa mig til þess að finna fyrir hamingju. Ég hlusta á sorglega tónlist og horfi á sorglegar bíómyndir til þess að fá mig til að gráta, þar sem að finna fyrir sorg er betra en að finna ekkert. Ég veit ekki hvað á að gera. Ég finn ekki einu sinni lengur fyrir ást þinni, Guð, eða kærleika frá fólki í kringum mig. Heilinn minn veit að ég er elskuð en ég finn ekki fyrir þeirri ást.

Sagt hefur verið að andstæðan við ást er ekki hatur, heldur áhugaleysi. Ég held að það sé satt. Að líða eins og enginn hafi einu sinni nógu mikinn áhuga á manni til að hata mann er hræðileg tilfinning. Í því felst þá að engum er nógu sama til að hugsa til manns. Einhvers staðar innst inni þá veit ég að ég er elskuð, en ég þrái að finna fyrir því.

Stundum finnst mér ég vera svo einmana því enginn virðist skilja hvað ég er að ganga í gegnum. Ég lái þeim það ekki. Hvernig ættu þau að skilja þegar ég skil það varla sjálf?

Ég bið þig, Guð, hjálpaðu mér.

Í minni baráttu gegn þunglyndi og kvíða þá eru það svona samtöl sem ég á við Guð oftar en ég myndi vilja viðurkenna. Það er erfitt að viðurkenna að ég er ekki með allt lífið á hreinu. Jafnvel þótt mér takist að sinna skólanum, mæta á mikilvæga fundi og að láta allt líta vel út á yfirborðinu, þá undir niðri líður mér eins og ég sé að brotna niður hægt og rólega.

Ég veit að ég er ekki ein um það að líða svona. Ef ég get látið allt líta vel út fyrir fólki í kringum mig, þá hljóta að vera aðrir eins og ég. Aðrir sem eru alveg jafngóðir eða jafnvel betri í þessum blekkingarleik. Á meðan ég sit hér hljóð, með allt innra með mér öskrandi hástöfum eftir því að einhver taki eftir sársaukanum mínum, þá er kannski einhver annar í kringum mig sem líður nákvæmlega eins en ég sé það ekki.

Allir þeir erfiðleikar sem ég hef gengið í gegnum hafa gert mér kleift að sjá hlutina frá nýju sjónarhorni. Þeir hafa breytt því hvernig ég sé og upplifi hlutina og út frá því hafa alls konar spurningar vaknað í kjölfarið. Þegar ég er sérstaklega langt niðri á ég það til að grípa sjálfa mig við að hugsa: ,,Af hverju ég?” og ,,Hvað hef ég gert til þess að verðskulda þetta?” Ég er byrjuð að átta mig á að allar þessar spurningar einblína bara á eitt. Mig. Mig og minn sársauka. Í öllum þessum hugsunum gleymi ég einu mun mikilvægara. Guð hefur áætlun fyrir mitt líf. Áætlun til heilla en ekki til óhamingju. Áætlun um vonarríka framtíð (Jeremía 29:11).

Sannleikurinn er sá að það er ekki Guð sem lætur slæma hluti koma fyrir mig. Þeir koma bara fyrir. Annaðhvort tek ég slæmar ákvarðanir eða ég lendi í slæmum aðstæðum sem ég hef ekki stjórn á. Í raun er ekki alltaf ástæða fyrir hlutunum og þá skiptir ekki máli hversu oft ég spyr þessara spurninga. Ég mun líklega aldrei fá neitt svar sem mun gera mig hamingjusama.

Í staðinn ætti ég að vera biðja Guð um að hjálpa mér í gegnum sársaukann. Spyrja Guð hvernig Hann getur látið sársaukann og erfiðleikana passa inn í áætlun Hans fyrir lífið mitt og hjálpað mér að vaxa í gegnum það. Það mun taka tíma. Allt tekur sinn tíma. Jafnvel þó það taki meiri tíma en ég myndi vilja, þá verð ég að treysta á áætlun Hans.

Áætlun Guðs fyrir lífið mitt snýst ekki alltaf bara um mig. Hún snýst um hvernig Hann getur notað mig. Hvernig Hann getur umbreytt mér í þá manneskju sem Hann veit að ég get orðið, hvernig sú manneskja getur hjálpað öðrum og hvernig ég get þjónað Honum.

Lífið mun alltaf hafa sína erfiðleika. Suma erfiðleika mun ég geta tæklað, sumir erfiðleikar munu nánast brjóta mig niður og sumir munu skilja eftir sig ör. Þannig virkar lífið. En ég þarf ekki að fara í gegnum þetta ein. Ég þarf ekki að grafa sársaukann djúpt niðri og láta eins og allt sé í lagi. Það er í lagi að hafa ör. Það er í lagi að vera ekki fullkomin. Það er í lagi að þurfa á hjálp að halda. Allur sársauki sem ég finn og allir erfiðleikar sem ég geng í gegnum, er Guð að ganga í gegnum með mér. Hann er hér til að hugga mig, leiðbeina mér í gegnum allt og hjálpa mér að tína upp brotin þegar ég er að brotna niður.

2. Korintubréf 1:3-7

Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, faðir miskunnsemdanna og Guð allrar huggunar sem hughreystir mig í sérhverri þrenging minni svo að ég geti hughreyst alla aðra í þreningum þeirra á sama hátt og Hann hughreystir mig. Eins og ég tek í ríkum mæli þátt í þjáningum Krists, þannig uppörvar Kristur mig einnig í ríkum mæli. En ef ég sæti þrengingum, þá er það til þess að þið öðlist kjark og frelsist og ef ég er vongóður, þá er það til þess að þið verðið vongóð og öðlist kjark og kraft til að standast þær þjáningar sem ég einnig líð. Ég ber fullt traust til ykkar því að ég veit að fyrst þið takið þátt í þjáningum mínum hljótið þið og að taka þátt í trúarvissu minni.

Ég er ekki með lífið á hreinu og oft hef ég ekki hugmynd um hvert ég er að stefna. Það er í lagi. Ég þarf ekki að vita allt. Guð er með áætlun fyrir mig og Hann skapaði mig með tilgang. Hann getur hjálpað mér að vaxa inn í þann tilgang. Ég þarf ekki að bera þennan sársauka ein. Guð er hér og það eru aðrir sem eru að ganga í gegnum það sama. Það sem hefur verið mun verða og það sem gerst hefur mun enn gerast og ekkert er nýtt undir sólinni (Prédikarinn 1:9). Guð getur umbreytt myrkustu og hræðilegustu hlutunum í lífinu í bjartar og fallegar stundir sem geta breytt mér til hins betra. Ég þarf bara að treysta á Hann. Jafnvel þó ég finni ekki alltaf fyrir því, þá veit ég að Guð elskar mig. Það er ekki til sú lifandi vera sem Guð elskar ekki. Sá sem getur elskað svo skilyrðislaust er einhver sem er fær um að upplifa djúpar tilfinningar. Þar með efast ég ekki um að Guð veit, finnur og skilur allt fullkomlega sem ég geng í gegnum.

Ég bið þess að hver sú manneskja sem þurfti að heyra þetta viti að þú ert ekki ein(n). Ég finn sársauka þinn. Guð finnur sársauka þinn og það eru fleiri sem finna hann líka. Þú ert ekki ein(n).

Alexandra-Líf Ívarsdóttir


55 views0 comments

Recent Posts

See All
  • White Facebook Icon
  • White Instagram Icon