Þorir þú

„Elsku Guð, takk fyrir allt það sem þú hefur gert í mínu lífi, takk fyrir öll þau tækifæri sem þú hefur gefið mér og ég þakka þér fyrir þau tækifæri sem þú munt gefa mér. Ég legg líf mitt fram fyrir þig, ég veit að þú hefur áætlun fyrir líf mitt, til heilla en ekki til óhamingju. Ég bið þig að leiða mig þinn veg og opna tækifæri til þess að ég fái að vaxa og hafa góð áhrif á fólkið í kringum mig. Elsku Jesús, ég legg allt mitt traust á þig og gef þér færi á því að móta stefnu lífs míns. Viltu gefa mér skýr boð um næstu skref sem ég á að taka í göngunni með þér. Í þínu nafni bið ég, amen.” Að elska Guð og treysta honum algjörlega getur verið hægara sagt en gert. Bæn líkt og þessi hér að ofan hef ég beðið margoft. Á sama tíma og ég vil treysta honum og vil leggja allt mitt líf í hans hendur er ég samt hrædd. Hrædd við að vera ekki nógu góð, hrædd við að fara gegn straumnum, hrædd við að mistakast, hrædd við álit annara og svona mætti lengi telja. Samt sem áður veit ég að hann vill vel fyrir sjá, hann skapaði mig með tilgang, hann hefur áætlun fyrir líf mitt eins og stendur í Jeremía 29:11, „Því að ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með yður, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita vonarríka framtíð.’’


Í Biblíunni sjáum við oft hvernig Guð gefur einstaklingum tækifæri en þessir einstaklingar glíma við sömu mannlegu hugsanir og ég. Einstaklingar á borð við Móse, Jósúa og Davíð. Móse var málhaltur og segir „Æ Drottinn, sendu einhvern annan.” Jósúa átti að stíga í fótspor Móse og skorti hugrekki en Guð segir „Vertu djarfur og hughraustur...” Svo er það Davíð, hann var minnstur allra bræðra sinna og var að gæta kindanna þegar Guð útvaldi hann, hann hafði litla þekkingu, en lagði samt sem áður allt sitt fram fyrir Guð.


Meira að segja leiðtogar í Biblíunni hafa efast, hafa verið hræddir og beðið Guð að senda einhvern annan.

Málið er að Guð gefur okkur styrk í okkar veikleikum, hann er með okkur og hann vill sjá okkur vaxa upp í þann einstakling sem hann skapaði okkur til að vera. Það má vera hræddur, þá má hafa efasemdir og við megum jafnvel biðja Guð um að senda einhvern annan. En mikilvægast í þessu öllu saman er að dvelja ekki þar, heldur rísa upp og treysta honum, treysta því að hann muni hjálpa okkur, hann mun styrkja okkur og hann mun leiðbeina okkur. Guð mun ekki gefa okkur tækifæri án þess að vera til staðar fyrir okkur. Lykillinn að því að stíga út í það sem Guð hefur fyrir lífið okkar er að þekkja röddu hans, þekkja þegar hann segir „LET´S GO”. Við gerum það með því að vera í stöðugu sambandi við hann og verja tíma með honum. Guð talar til okkar á mismunandi hátt, það getur verið í gegnum bæn, fólk, Biblíuna og margt fleira, hann er persónulegur Guð og mætir okkur á þeim stað sem við erum hverju sinni. í Síðara Tímóteusarbréfi 1:7 segir „Því að ekki gaf Guð oss anda hugleysis, heldur anda máttar og kærleika og stillingar.”


Spurningin er því þessi.

Þorir þú að:

...stíga út í þá áætlun sem Guð hefur fyrir lífið þitt?

...treysta því að Guð verði með þér?

...taka af skarið þrátt fyrir að geta gert mistök?


Þorir þú raunverulega að leggja lífið þitt algjörlega í hendurnar á Guði og fara af stað í þá vegferð sem hann hefur fyrir lífið þitt?

Í Jesaja 41:10 stendur

„Óttast eigi því að ég er með þér, vertu ekki hræddur því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér, ég styð þig með sigrandi hendi minni.”


Ég ætla að treysta á þessi loforð sem Guð segir í sínu orði, ég ætla að stíga út í það sem hann hefur fyrir mitt líf, treysta því að hann kemur með styrk inn í mína veikleika og komi með visku og leiðsögn á þeirri vegferð sem ég er á með honum. Ég hvet þig til að gera slíkt hið sama.

Linda Sif Magnúsdóttir59 views0 comments

Recent Posts

See All
  • White Facebook Icon
  • White Instagram Icon