Þrái ég í alvöru nærveru Guðs?

Þarf að verða heimsfaraldur sem útrýmir allri afþreyingu og samskiptum við annað fólk svo ég eyði meiri tíma með Guði ?

Ég þarf vandræðalega oft að taka afstöðu að eyða meiri tíma með Guði. Hversvegna er það ekki lífið mitt að vera í Kristi?


Ég er sköpuð af Guði, eins og Guð ætlaði sér og hverjum hæfileika eða galla sem ég ber ætlar Guð ákveðið hlutverk, annaðhvort til að kenna mér eða vera öðrum til uppörvunar.

Hann þekkir mig betur en ég sjálf og betur en fólkið sem hefur fylgt mér frá fyrsta degi því hann vann hvern þráð og hverja frumu í líkama mínum, öll taugaboð og allt sem hefur áhrif á tilfinningar mínar og hugsanir.

Ekki bara þekkir hann mig heldur elskar hann mig fram yfir minn skilning, hann skapaði vistkerfi með öllu sem ég þarfnast og gerir mér kleift að takast á við ýmis verkefni sem þroska mig.

Hann skapaði samfélag þar sem ég get dafnað í réttum aðstæðum, notið félagsskaps annarra manneskja sem hann skapaði og elskar af sama megni.

Oft fylgist hann þó með mér í fjarlægð.

Oft fer ég í verkefni, sum erfið, önnur létt, án þess að taka hann með mér.

Oft eyði ég tíma og orku í hluti sem hryggja hann.

Oft gleymi ég honum og hversvegna hann skapaði mig.

Hann skapaði mig til samfélags við sig.

Hann gerði fyrir mig hluti sem ég tek sem gefnu.

Oft tek ég honum sem gefnum hlut.

Ég leyfi mér jafnvel að reiðast honum þegar ég skil ekki aðstæður mínar, þegar ég sé aðeins lítinn kafla í heilu handriti sem hann hefur skrifað til enda.

Guð meira segja fullkomnaði veru mína á þessari jörð með fyrirgefningu synda minna, það er ekkert of slæmt fyrir hann. Hann elskar mig samt.

Guð á skilið alla mína ást

Guð á skilið alla mína athygli

Guð á skilið allt mitt traust

Guð á skilið allt mitt lof


Megi líf mitt vera lofsöngur til hans

Megi ég kjósa hann á hverjum degi, í hverjum aðstæðum

Megi ég syrgja með honum, megi ég gleðjast í honum.

Þó svo ég ætti ekkert, mætti ég velja hann.


Jenný Guðnadóttir29 views0 comments

Recent Posts

See All
  • White Facebook Icon
  • White Instagram Icon