Góður ávöxtur er ekki allt

Að bera góðan ávöxt. Ég hef heyrt marga prédikara tala um það gífurlega mikilvæga málefni. Við þurfum að bera betri ávexti. Þeir þurfa að vera flottari, stærri, ljúffengari. Við að vera kærleiksríkari, þolinmóðari, jákvæðari. Jesús sagði við mannfjöldann í Matt. 7:17-20 „17Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu, en slæmt tré vonda. 18Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu. 19Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað. 20Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá.“

Til að við séum öll á sömu blaðsíðu, þá talar Páll í fyrra bréfi sínu til Galatamanna um ávexti andans. Þeir eru: Kærleikur, friður, gleði, trúmennska, góðvild og fleiri góðir eiginleikar. Út frá því sem Jesús sagði er það að bera góða ávexti greinilega mjög mikilvægt. Þannig er ekki lausnin að einfaldlega gera þá betri? Verða kærleiksríkari, þolinmóðari og jákvæðari? Jú... en nei. Leyf mér að útskýra.

Það er frábært að verða jákvæðari og þolinmóðari. En til að gera epli bragðbetri og heilbrigðari vökvar maður ekki eplið, setur teppi yfir það og kyssir það góða nótt. Maður vökvar tréð. Og maður passar upp á jarðveginn. Skoðum aftur það sem Jesús sagði. Áherslan er ekki á ávextinum. Áherslan er á trénu. Er tréð gott eða slæmt? Er tréð heilbrigt? Og afleiðing þess er ávöxturinn. Það sem við gerum oft er að einbeita okkur að afleiðingunum. „Ég þarf að vera góðvildari.“ „Ég þarf að vera gjafmildari.“ „Ég þarf að vera kærleiksríkari.“ Sem kemur frá góðu hugarfari, en ekki alltaf besta lausnin.

Jesús útskýrir í Jóhannesarguðspjalli 15:4-5 hvernig við getum borið góðan ávöxt. „4Verið í mér, þá verð ég í yður. Greinin getur ekki borið ávöxt af sjálfri sér nema hún sé á vínviðnum. Eins getið þér ekki heldur borið ávöxt nema þér séuð í mér. 5Ég er vínviðurinn, þér eruð greinarnar. Sá ber mikinn ávöxt sem er í mér og ég í honum en án mín getið þér alls ekkert gert.“ Í þessu samhengi er Jesús tréð og við greinarnar. Til að greinar beri ávöxt þurfa þær einfaldlega að vera hluti af trénu. Eins, svo við berum góðan ávöxt, þurfum við að vera „í Jesú.“

Aftur að okkur sem tré. Við berum ekki góða ávexti nema við séum góð tré. Svo við þurfum að vinna markvisst að því að byggja það upp. Ekki misskilja mig samt, það er mikilvægt að veita ávextinum athygli. Því að „af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá.“ En frekar en að eyða allri orku í að „verða gjafmildari,“ verjum orku í að byggja grunninn. Ekki bara þurrka blóðið af handleggnum, bindum um sárið.

Að vera í Jesú er að varðveita boðorð hans. Fylgja því sem hann sagði og kenndi. Hvernig gerum við það? Góð byrjun er að lesa Biblíuna og læra hvað hann raunverulega sagði. Meira en að hlusta bara á hvað aðrir segja. Lesum sjálf, lærum sjálf og biðjum sjálf. Sá sem gerir það er eins og „tré gróðursett hjá lindum, það ber ávöxt sinn á réttum tíma og blöð þess visna ekki.“ (Sálmur 1:3.) Og þegar tréð er orðið stærra og heilbrigðara, verða ávextirnir stærri og heilbrigðari.


Jóel Fjalarsson68 views0 comments

Recent Posts

See All
  • White Facebook Icon
  • White Instagram Icon