Innilokunarkennd og Covid

Vinir mínir

Fyrr á árinu fórum við foreldrar mínir í stutta heimsókn til Noregs. Þar drukkum við kaffi, dönsuðum með götulistamönnum og áttum góða stund saman. Það sem mér fannst þó magnað var að fara um borð í flugvél, 300 manns, af alls kyns þjóðernum og trúarbrögðum (geri ég ráð fyrir) þar sem allir eru lokaðir inni. Um leið og vélin lyftist upp og hættir að snerta íslenska grundu er ekki aftur snúið. Enginn kemst inn og enginn út þar til hún lendir. Þar sem ég sat, upp við glugga á sokkunum með heyrnartól í eyrunum og hlustaði á létta lofgjörðartónlist og stytti mér stundir með lestri á bók, fann ég nærveru Guðs koma yfir mig. Ég get ekki sagt að ég muni eitthvað sérstaklega hvað okkur fór á milli en ég man hvað mér fannst þetta magnað. Að vera lokaður inni, í 30.000 feta hæð og komast ekkert. Ekki inn og ekki út. Þrátt fyrir það var nærvera Guðs svo sterk. Hún kom eftir að dyrunum á vélinni var lokað.

Þetta Covid-19 ástand sökkar. Enginn óskaði sér þess og þetta er bara mjög erfitt. Við ákveðum samt sjálf hvernig við högum lífi okkar og hvernig við ætlum að nýta þetta tímabil. Það styttist í að einhverjum höftum verði aflétt en það er langt í land í venjulegt ástand. Ég ætla að koma sterkari út úr þessu tímabili en þegar ég fór inn í það. Háskóli Íslands lokaði á nemendur sína en bíllinn minn er orðin kennslustofan mín. Þar hlusta ég á podcöst, bæði ræður og leadership efni. Þegar ég er heima les Biblíuna og þegar ég verð þreyttur á því, hlusta ég á hana. Ég hringi í fólk sem byggir mig upp og dregur fram það besta í mér. Ég bið til Jesú því hann hlustar á og leiðbeinir mér, jafnvel þó svo íslensk yfirvöld loki mig inni.

Það er gott að eiga stóran Guð en ég minni mig oftar á það þegar hlutir eru erfiðir. Það eru forréttindi að eiga persónulegan Guð. Guð sem alltaf er hægt að leita til. Hvar sem við erum stödd, í hvaða kringumstæðum sem er og jafnvel á erfiðum stundum. Þá skiptir engu máli hvort við erum í 30.000 feta hæð, í kafbáti, í strætó eða í göngutúr. Jesús sagði svo réttilega: „Sjá, ég er með yður alla daga, allt til enda veraldar“ (Matteus 28:20).

Notaðu þetta tímabil vel og ákveddu, hér og nú, að koma sterkari út úr því en þú fórst inn í það. Einar Aron Fjalarsson


37 views0 comments

Recent Posts

See All
  • White Facebook Icon
  • White Instagram Icon