Tilviljun?

Af hverju erum við hérna?

Hvað erum við að gera hérna?

Hvert munum við fara eftir þetta allt saman?

Er þetta allt saman bara ein stór tilviljun?

Þetta eru spurningar sem fara stundum í gegnum hugann hjá fólki. Enginn getur svarað þessum spurningum með 100% vissu, en við höfum trú og í gegnum trúnna, þá trúum við að það séu til svör og þau séu að finna í gegnum Guð. Svo af hverju erum við hér? Guð skapaði okkur vegna þess að það gladdi Hann. Það er talað um þetta á mörgum stöðum í ritningunni og talaði Jóhannes mjög nákæmlega um það í Opinberunarbókinni 4:11, „Verður ert þú, Drottinn vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn því að þú hefur skapað alla hluti og að þínum vilja urðu þeir til og voru skapaðir“. En hvað erum við að gera hérna? Í 1. Korintubréfi 1:9 stendur „Trúr er Guð sem hefur kallað ykkur til samfélags við son sinn Jesú Krist, Drottin vorn“. Guð skapaði okkur þess vegna til þess að við getum átt eiga samfélag við Hann. Hvert munum við svo fara eftir þetta allt saman? Í Predikaranum 12:7 er talað um að við munum fara aftur til Guðs eftir að okkar jarðneska lífi líkur, „og moldin hverfur aftur til jarðarinnar þar sem hún áður var og andinn til Guðs sem gaf hann“.

Þó svo að við séum að koma með okkar hugmyndir að svörum við þessum spurningum, þá er það ekki þar sem sagt að allir myndu nota sömu svör. Fólk upplifir oft Guð á mismunandi hátt og Guð talar líka til hvers einstaklings á þann hátt sem einstaklingurinn skilur.

Stundum reynir Guð að tala við okkur, og við áttum okkur ekki á því strax. Stundum biðjum við t.d. fyrir einhverju, en svo finnst okkur við ekki fá nein svör við því. Við bíðum og bíðum eftir svari því við erum svo viss um að Guð fylgi okkar plani og því sem við biðjum fyrir. Við förum stundum í gegnum erfiðar og óþægilegar aðstæður en svo allt í einu, vegna einhverjar „tilviljunar“ þá kemur miklu betri lausn á öllu sem við höfðum ekki séð fyrir. Við sjáum oft ekki heildarmyndina fyrr en löngu seinna og sjáum þá að það sem við vorum að biðja fyrir passaði ekki endilega inn í skipulag Guðs, því Hann var með miklu betra og stærra plan fyrir líf okkar sem okkur gat ekki órað fyrir.

Við viljum oft vera sjálfsstæð og taka okkar eigin ákvarðanir. Okkur finnst líka oft best að vera innan þægindarammans sem við höfum búið okkur til og vera ekkert að taka allt of miklar áhættur eða breyta til. Stundum vill Guð samt að við förum út fyrir þægindaramman, förum á framandi slóðir til þess að við komumst á betri stað í lífinu. Sálmur 23 er mjög góður til að sjá þetta betur fyrir okkur. Guð er okkar hirðir og við erum kindurnar hans. Hann vill það besta fyrir okkur og fer með okkur á grænar grundir þar sem við getum hvílst í honum og notið lífsins. En leiðin getur verið erfið. Jesus sagði í Matteusarguðspjalli 11:28 „Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eru hlaðin, og ég mun veita yður hvíld“. Guð segir ekki að Hann muni taka í burtu þungann og öll erfiðin, heldur lofar Hann okkur því að Hann gefi okkur hvíld. Með því að treysta Guði og trúa staðfastlega á að Hann hafi það besta í hyggju fyrir okkur, þá förum við réttu leiðina. Rétta leiðin getur verið um dimman dal og við upplifum eins og við sjáum ekkert nema hættur og óþægindi. Þá verðum við að reyna að muna að Guð er fremstur og Hann leiðir okkur áfram í gegnum hvaða aðstæður sem er. Stundum viljum við reyna að ráða förinni og höldum að við vitum betur, en komumst þá að því á leiðinni að við erum týnd. Guð er alltaf tilbúinn að finna okkur og leyfa okkur að fylgja sér, hversu oft sem við förum út af veginum. Hann sleppir aldrei af okkur hendinni, þó svo að okkur finnist það stundum. Þegar við komumst loksins að leiðarenda sjáum við hvernig leiðin sem Guð valdi fyrir okkur er miklu betri en ef við hefðum farið okkar eigin leið. Sumir myndu segja að leiðin sem Guð velur, sé „bara tilviljun“, en við viljum segja að þetta sé allt skipulagt!

Það er mikilvægt að læra að treysta Guði en ekki okkur sjálfum, eins og stendur í Biblíunni t.d. í Orðskviðum, 3:5 „Treystu Drottni af öllu hjarta en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit“ og í Sálm 37:5 „Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá“.

Guð neyðir engan til að fylgja sér, heldur vill Hann að við ákveðum sjálf hvort við viljum fylgja honum eða fara okkar eigin leiðir. Í Opinberunarbókinni, 3 kafla og 20 versi stendur:

„Ég stend við dyrnar og kný á. Ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrunum mun ég fara inn til hans og neyta kvöldverðar með honum og hann með mér.“

Við höfum því alltaf viljann, hvað við gerum í lífinu og hvernig við viljum lifa því, hvort við viljum fylgja Guði eða fara eftir því sem okkur finnst vera skynsamlegast.

Þú hefur því valið hvort þú viljir opna fyrir Guði og upplifa allt það magnaða ævintýri og plön sem Hann hefur skipulagt fyrir þig.


Guðlaug María og Birkir Ásgeirsson40 views0 comments

Recent Posts

See All
  • White Facebook Icon
  • White Instagram Icon